Síðasti dagur Airwaves ’10. Ég skoðaði off-venue dagskrána og sá að Yunioshi voru að spila á Hemma & Valda kl. 19. Ég tékkaði á þeim á MySpace og þetta var ágætt stöff. Fannst upplagt að líta þarna við og fara svo á Nasa síðar um kvöldið.
Þegar ég mætti rúmlega 19 var alveg troðið út að dyrum, en ég náði að troða mér inn um bakdyrnar. Þar var bara einn gaur að spila á gítar – vissi ekki hver það var (það var ekkert á undan Yunioshi samkvæmt dagskránni). En eftir smá rannsóknarvinnu tel ég það líklegt að þetta hafi verið Rob Maddison – fínasta tónlist hjá honum. Rólegt… upplagt á sunnudegi.
Síðan byrjuðu Yunioshi, eða svona brot af hljómsveitinni (restin var víst farin til UK). Rob Maddison fyllti í skarðið og sá um trommurnar. Very nice var ég víst búinn að nótera hjá mér. Ljúfir tónar. Þau tóku nokkur lög og síðan hélt ég heimleiðis. Ætlaði að fá mér eitthvað að borða og skella mér síðan á Nasa.
En nei, ekki alveg. Ég var að keyra heim, var á rauðu ljósi hjá Hamborgarabúllunni… síðan kom grænt og ég ætlaði af stað. Það kom eitthvað skrítið hljóð (eins og eitthvað hefði brotnað) og bíllinn haggaðist ekki. Ég prófaði að slökkva á bílnum og starta honum aftur (“have you tried turning it off and on again?”), en það hjálpaði ekki. Ég setti hazard ljósin á, bílar flautuðu og ég var fucked. Það komu einhverjir góðhjartaðir gangandi vegfarendur og buðust til að ýta mér aðeins til hliðar svo ég væri ekki að blokka umferðina.
Pabbi kom svo og dróg mig að Heklu (verkstæðið sko, ég var ekki alveg það brjálaður að ég henti bílnum í eldfjall, næstum því samt…) þar sem við skildum bílinn eftir.
Þannig að ég tafðist töluvert… fór heim til að fá mér að borða og þá var klukkan orðin svona rúmlega 21. Í einhverju bjartsýniskasti ímyndaði ég mér að fólk væri bara að taka því rólega, einhverjir túristar farnir heim… þannig að ég þyrfti ekki að stressa mig á að mæta snemma vegna hættu á að Nasa myndi fyllast fljótt. En ég hafði alltaf “sneaking suspicion” að það væri bara bull hjá mér. Það reyndist rétt þegar við Bjössi keyrðum fram hjá Nasa og sáum alveg klikkaða röð fyrir utan.
Við lögðum samt bílnum og reyndum við röðina. Hún var aðeins lengri heldur en föstudaginn, en við gáfum þessu smá séns. En röðin var lítið sem ekkert að hreyfast – Dan Deacon var byrjaður þannig að það var ólíklegt að röðin væri að fara breytast á næstu ~45 mínútunum. Við vorum næstum því aftastir og nenntum ekki að standa þarna í rigningu og kulda þannig að við fórum á Sódóma til að tékka á hinum valmöguleikanum sem var í boði á Airwaves dagskránni.
Á Sódóma var hin íslenska hljómsveit XIII að spila. Allt í lagi rokk, en ég var ekkert að missa mig. Við gáfum þessu smá stund (ca. 30 mínútur) og tékkuðum svo aftur á Nasa. Röðin hafði bara lengst ef eitthvað var. Við sáum fólk sem hafði verið aðeins fyrir framan okkur fyrr um kvöldið og það hafði hreyft sig lítið sem ekkert.
Við stóðum samt í röðinni í smá stund, en svo gáfumst við upp. Þetta var greinilega ekki að fara að gerast. Svekkjandi.
Ég veit að þetta var klúður hjá mér – ég hefði átt að mæta fyrr. En þetta fékk mig til að hugsa – ég hef eftir “áreiðanlegum heimildum” að það voru seldir 5000 miðar á Airwaves 2010. Hvað tekur Nasa marga? 600-900 manns? Segjum að þeir hafi troðið 1000 manns þarna inn – það þýðir samt að 80% af þeim sem keyptu miða á Iceland Airwaves 2010 gátu ekki séð dagskrána síðasta daginn. OK, fólk hefði getað farið á Sódóma – en Sódóma rúmar ekki 4000 manns + það sem var í boði þar var ekkert æðisfengið (heillaði greinilega ekki marga þar sem staðurinn var nánast tómur).
Spurning ef þeir ætla að hafa svona “stór nöfn” (Dan Deacon og FM Belfast voru greinilega að draga að töluvert af fólki) á sunnudaginn að hafa þá 1-2 önnur venue opin með álíka spennandi hljómsveitum – til að dreifa álaginu og leyfa meira en 20% af gestunum að sjá eitthvað síðasta kvöldið.
En, anyways… Eitt af því sem er svo mikil snilld við Iceland Airwaves hátíðina er allt fólkið sem maður rekst á – sumir sem maður hittir reglulega, aðrir sem maður hefur ekki séð í langan tíma og enn aðrir sem maður hefur aldrei hitt áður. Gott stöff.
Það sem stóð upp úr Iceland Airwaves 2010 var Moderat, Slagsmålsklubben, Robyn og Jungle Fiction.
Þetta raðarrugl og að missa af síðustu tónleikunum drap svolítið Airwaves-vímuna… bílavandræðin höfðu líka eitthvað með það að segja að ég var ekkert í brjáluðu stuði síðasta kvöldið og hafði takmarkaða þolinmæði fyrir að bíða í biðröð.
Já, ég náði svo í bílinn úr viðgerð í gær. Öxullinn hafði s.s. brotnað og varahlutirnir voru ekki til á landinu þannig að þeir þurftu að panta þá. Þetta tók viku og kostaði 140.000 kr. Hefði alveg viljað nota þennan pening í eitthvað annað :(
Fórst þú á Airwaves 2010? Hvað fannst þér bestu tónleikarnir? Hvað stóð upp úr? Hvar var besta stemningin?
Jæja, sjáumst hress á Iceland Airwaves 2011! Eins gott að setja það í Google Calendar: 12.-16. október 2011.
Síðast uppfært 2. November, 2010
Leave a Reply