nasa
Iceland Airwaves 2011 – Dagur 4 – Enn fleiri tónleika-partý-myndir
It’s on! Laugardagurinn – mesti partý-dagurinn á Airwaves 2011? Hugsanlega, alla vega hjá mér – upplagt að nota tækifærið og fagna því að ég var búinn að skila hópverkefninu af mér ;)
Þegar ég var búinn að skila verkefninu fór ég á Hótel Plaza sem var “Media Center” fyrir Airwaves ’11 og þar var einnig verið að selja Iceland Airwaves ’11 swag. Ég ætlaði mér að kaupa einhvern kúl Airwaves bol – veit ekki hvort fólk hafi tekið eftir því að ég elska boli ;) – en síðan sá ég líka þessa flottu (limited edition) hettupeysu sem ég bara varð að fá mér líka. Núna á ég boli frá Airwaves 2009 (2 stk.), 2010 og 2011 – ég mun að öllum líkindum halda þessari seríu áfram :)
Þegar ég kom heim ákvað ég að nota tækifærið og uppfæra símann loksins í iOS 5 sem kom út nokkrum dögum áður. Það tók alveg sinn tíma að uppfæra þannig að ég lagði mig bara á meðan (fékk ekki mikinn svefn nóttina áður).
Þegar ég var búinn að uppfæra símann og leggja mig kom Bjössi að sækja mig. Við röltum svo frá honum í Menningarsetrið til að ná í Hlyn. Leið okkar lág í Listasafn Reykjavíkur. Þegar við mættum var Valdimar og félagar byrjaðir að spila. Maður hafði séð þau áður á miðvikudeginum – en núna á örlítið stærra sviði ;) Alltaf góð – ljúfir tónar.
Næst á dagskrá voru Other Lives. Mjööög gott. Kom skemmtilega á óvart. Gott vibe. Svo var það Austra. Mjög fínt. Very nice. Gott partý. Nett elektró.
Já, maður rak augun í nokkrar Iceland Airwaves hefðir… Fólkið sem hampar ananas og sveiflar honum fyrir ofan sig – veit ekki alveg hver pælingin bakvið það er. Síðan eru það LOST gaurarnir sem maður hefur séð nokkrum sinnum undanfarin ár. Ég spjallaði smá við þá og þetta var víst 6. árið þeirra í röð á Iceland Airwaves. Þetta er svona smá almenningsþjónusta hjá þeim – þeir eru að hjálpa fólki sem er týnt (t.d. ef þú týnir félögunum) :)
Það var einhver pæling að reyna sjá SBTRKT, en þar sem röðin á NASA var of löng þá hélt partý crew-ið sig bara á Listasafninu. Það var líka allt í lagi af því að GusGus voru næst upp á svið! Þau standa alltaf fyrir sínu. Bara snilld. Gott partý.
Við Bjössi skruppum síðan á NASA. Biðum í röð í kannski 20 mínútur þangað til við komumst inn þar sem við sáum Team Me. Hressir Norðmenn. Gott stöff. Eftir það var haldið á Kaffibarinn til að hitta á restina af liðinu – þar tók við reyndar enn önnur röðin… en það hafðist fyrir rest.
Það að ég var í aðeins meira partý-stuði þetta kvöldið gæti haft einhver áhrif á að ég tók töluvert fleiri myndir (og video) ;) Reyndar búinn að sía smá út þannig að þetta eru ekki allar ljósmyndirnar sem ég tók.
[Read more…] about Iceland Airwaves 2011 – Dagur 4 – Enn fleiri tónleika-partý-myndir
Iceland Airwaves 2011 – Dagur 3 – Fleiri tónleikar. Fleiri myndir.
Jæja! Dagur #3 af Iceland Airwaves 2011… föstudagur. Tónlistarveislan heldur áfram. Ég byrjaði kvöldið á smá Nýherja-giggi. Einhver “stefnumótunar fögnuður” – snýkja mat og svona ;) Þegar ég var búinn að gleypa í mig alltof mikið af kokteilmat skundaði ég heim og gerði mig tilbúinn fyrir Airwaves. Veðrið var frekar klikkað – úrhelli. Ég náði í Bjössa svo hann þyrfti ekki að ganga í bæinn í þessu veðri. Það var flóð á götunum… lítil stöðuvötn hér og þar.
Við mættum á NASA svona rétt fyrir 20:30 þar sem Hlynur og Óttar voru nú þegar. Samaris voru að spila. Allt í lagi, ekki mjög eftirminnilegt – en þetta eru ungir krakkar, bara að prófa sig áfram.
Næst var það Cheek Mountain Thief sem er að hluta til bresk hljómsveit (held að söngvarinn sé frá Bretlandi og restin frá Íslandi). Nokkuð fínt. Gott vibe. Skemmtileg saga hvernig hljómsveitin varð til – söngvarinn kom fyrir ári á Airwaves 2010 með annarri hljómsveit. Síðan elskaði hann Ísland svo mikið að hann settist að. Hann varð ástfanginn af íslenska fólkinu, og þá sérstaklega einni persónu. Hann dvaldi í Húsavík í nokkra mánuði þar sem hann fann nokkra af hljómsveitarmeðlimunum. Þar nálægt er fjall sem kallast víst Kinnafjall, þú veist “Cheek Mountain” ;)
Á eftir þeim kom Young Magic. Mjög gott. Nettur trans. Minnti smá á Safri Duo – snilldar trommur, góður rythmi. Var að fíla ‘etta. Næst á svið var Niki and the Dove – smá sænsk sýra (sum lögin voru smá súr). Trans dansarar fylgdu með hljómsveitinni og voru að dans uppi á sviði. Þetta var allt í lagi, en stundum var eins og það væri of mikið í gangi, of mikið noise/ekki rétt mixað.
Eftir þetta kom svo tUnE-yArDs sem maður var búinn að heyra fólk tala svolítið um, en ekki búinn að kynna sér ítarlega. Þetta var öðruvísi, en nokkuð gott. Söngstíllinn minnti mig smá á Afríku. Það var mikið action á dansgólfinu. Fínasta stemning.
Við héldum okkur sem fastast á NASA, sem var mjög góð ákvörðun, það var víst mjög löng biðröð fyrir utan. Alltaf gott ef maður getur sloppið við að bíða í röð. Næst á dagskrá á NASA var Clock Opera sem ég var frekar spenntur fyrir að sjá. Þeir voru mjög góðir – virkilega góð tónlist. Topp rokk. Mikil stemning.
Síðasta sem ég sá þetta kvöldið kom virkilega skemmtilega á óvart. Það var Totally Enormous Extinct Dinosaurs. Þetta var gaur með hin og þessi rafhljóðfæri sem fékk aðstoð frá einni söngkonu og tveim dönsurum (sem voru reglulega að skipta um búninga). Sjálfur var hann í risaeðlubúningi og setti á sig endrum og sinnum indíánahatt. Hann spilaði taktfast elektró. Algjör snilld. Gott partý, góð stemning.
Eftir þetta fór ég beint heim – það var skóli kl. 9 daginn eftir (ja, eða s.s. nokkrum klst. seinna). Hressandi :)
[Read more…] about Iceland Airwaves 2011 – Dagur 3 – Fleiri tónleikar. Fleiri myndir.
Iceland Airwaves 2011 – Dagur 2 – Tónleikar og myndir fara vel saman
Hallelujah! Þessi heilaga hátíð heldur áfram :) Ég var aftur smá fastur uppi í skóla í 40% hópverkefni. En ég mætti á NASA rétt fyrir hálf tíu – Hlynur og Bjössi voru einmitt mættir fyrir utan á nákvæmlega sama tíma og ég, gríðarlega heppilegt. Það var engin biðröð þannig að við fórum bara strax inn. Lúxus ;) Óttar mætti aðeins seinna, rennandi blautur eftir að hafa reynt að komast á Listasafnið til að sjá Beach House.
Við náðum restinni af Láru Rúnars. Ágætis stöff. Síðasta lagið var sérstaklega gott, kraftur í því. Veit reyndar ekkert hvað það heitir ;) Næst á dagskrá var kanadíska hljómsveitin Young Galaxy. Nokkuð gott, en engin gargandi snilld. Lárus slóst svo í hópinn þegar hann var búinn að hlusta á sinfóníur í Hörpu.
Svo var það Active Child sem ég vissi lítið sem ekkert um (eins og er oft með hljómsveitir sem maður uppgötvar á Iceland Airwaves). Í fyrstu var maður ekki alveg viss hvað maður ætti að halda… gaur að syngja hástöfum á meðan hann spilaði á meðalstóra hörpu. En síðan datt maður meira og meira í gírinn. Þetta var bara fínasta stöff. Veit ekki alveg hvað það var, en það var eitthvað sem minnti mig á Moderat (sem voru einmitt að gera mjög góða hluti á Iceland Airwaves 2010). Góður bassi, góður rythmi… Kom skemmtilega á óvart.
Síðast á dagskrá var YACHT. Góð keyrsla. Hressleiki og kraftur. En þau voru smá skrítin/freaky/arty…
Photos, baby! Check it out… Mér finnst tónleikamyndir oft koma skemmtilega út – svo skemmtileg lýsing og góð stemning.
[Read more…] about Iceland Airwaves 2011 – Dagur 2 – Tónleikar og myndir fara vel saman
Iceland Airwaves 2011 – Dagur 1 – Umfjöllun og myndir
Jæja, það er aftur komið að því… Iceland Airwaves. Miðvikudagur, fyrsti dagurinn. Spennandi. Ég gat reyndar ekki byrjað mjög snemma þar sem ég var í skólanum og svo vorum við að vinna í hópverkefni eftir tímann. En ég brunaði heim og skellti mér í Airwaves gallann. Bjössi var víst á leiðinni í Hörpu og Hlynur og Lalli voru á NASA. Þegar ég var búinn að finna bílastæði hjá Kolaportinu/Bæjarins beztu (algjör heppni!) tók ég þá ákvörðun að tékka á Hörpunni – hafði ekki ennþá upplifað tónleika í Hörpu og fannst upplagt að prófa Iceland Airwaves í Hörpu.
Ég náði restinni af Ourlives – fínasta íslenskt rokk. Benjamin Francis Leftwich þurfti víst að afboða vegna veikinda þannig að við Bjössi þurftum að finna hvað við vildum tékka á næst. Við náðum í farartækið hans Bjössa í bílakjallaranum og keyrðum fram hjá NASA þar sem var alveg rugl löng röð. Þar sem maður hefur ekki góða reynslu af svona röðum þá ákváðum við að sleppa því að bíða í röð. Fórum í staðinn á Gaukinn þar sem Blaz Roca var að spila ásamt góðum vinum. Erpur/XXX Rottweiler ná alltaf að pumpa upp góða stemningu.
Við Bjössi vildum tékka aftur á NASA hvort það væri ennþá svona biluð röð þar, af því að við vissum í raun ekki hvað við vildum sjá næst. Röðin náði ennþá nánast að Alþingi þannig að við snérum við og fórum á Café Amsterdam. Þar hittum við Einar Birgi, Áka, Kristínu og fleiri. Já, það er eitt það skemmtilega við Airwaves að maður hittir alltaf fullt af hressu liði :) Þarna var hljómsveit sem kallar sig Hljómsveitin Ég að spila – minnti svolítið á svona klassískar bílskúrshljómsveitir að prófa sig áfram ;)
Við Bjössi beiluðum fljótlega á því og fórum aftur á Gauk á Stöng þar sem EmmSjé Gauti var á sviðinu. Við tjilluðum bara á kantinum við eitthvað borð með Ásdísi og biðum eftir næsta atriði. Það var nefninlega Valdimar – hápunktur kvöldsins, mjög skemmtileg tónlist og góð stemning. Kristín slóst í hópinn og líka Hlynur fyrir rest.
Ég tók náttúrulega nokkrar ljósmyndir, eins og ég geri stundum ;)
Til hamingju allir! Það er hátíð í bæ.
[Read more…] about Iceland Airwaves 2011 – Dagur 1 – Umfjöllun og myndir
Iceland Airwaves 2010 – Dagur 5 – Biðraðir og vonbrigði
Síðasti dagur Airwaves ’10. Ég skoðaði off-venue dagskrána og sá að Yunioshi voru að spila á Hemma & Valda kl. 19. Ég tékkaði á þeim á MySpace og þetta var ágætt stöff. Fannst upplagt að líta þarna við og fara svo á Nasa síðar um kvöldið.
Þegar ég mætti rúmlega 19 var alveg troðið út að dyrum, en ég náði að troða mér inn um bakdyrnar. Þar var bara einn gaur að spila á gítar – vissi ekki hver það var (það var ekkert á undan Yunioshi samkvæmt dagskránni). En eftir smá rannsóknarvinnu tel ég það líklegt að þetta hafi verið Rob Maddison – fínasta tónlist hjá honum. Rólegt… upplagt á sunnudegi.
Síðan byrjuðu Yunioshi, eða svona brot af hljómsveitinni (restin var víst farin til UK). Rob Maddison fyllti í skarðið og sá um trommurnar. Very nice var ég víst búinn að nótera hjá mér. Ljúfir tónar. Þau tóku nokkur lög og síðan hélt ég heimleiðis. Ætlaði að fá mér eitthvað að borða og skella mér síðan á Nasa.
En nei, ekki alveg. Ég var að keyra heim, var á rauðu ljósi hjá Hamborgarabúllunni… síðan kom grænt og ég ætlaði af stað. Það kom eitthvað skrítið hljóð (eins og eitthvað hefði brotnað) og bíllinn haggaðist ekki. Ég prófaði að slökkva á bílnum og starta honum aftur (“have you tried turning it off and on again?”), en það hjálpaði ekki. Ég setti hazard ljósin á, bílar flautuðu og ég var fucked. Það komu einhverjir góðhjartaðir gangandi vegfarendur og buðust til að ýta mér aðeins til hliðar svo ég væri ekki að blokka umferðina.
Pabbi kom svo og dróg mig að Heklu (verkstæðið sko, ég var ekki alveg það brjálaður að ég henti bílnum í eldfjall, næstum því samt…) þar sem við skildum bílinn eftir.
Þannig að ég tafðist töluvert… fór heim til að fá mér að borða og þá var klukkan orðin svona rúmlega 21. Í einhverju bjartsýniskasti ímyndaði ég mér að fólk væri bara að taka því rólega, einhverjir túristar farnir heim… þannig að ég þyrfti ekki að stressa mig á að mæta snemma vegna hættu á að Nasa myndi fyllast fljótt. En ég hafði alltaf “sneaking suspicion” að það væri bara bull hjá mér. Það reyndist rétt þegar við Bjössi keyrðum fram hjá Nasa og sáum alveg klikkaða röð fyrir utan.
Við lögðum samt bílnum og reyndum við röðina. Hún var aðeins lengri heldur en föstudaginn, en við gáfum þessu smá séns. En röðin var lítið sem ekkert að hreyfast – Dan Deacon var byrjaður þannig að það var ólíklegt að röðin væri að fara breytast á næstu ~45 mínútunum. Við vorum næstum því aftastir og nenntum ekki að standa þarna í rigningu og kulda þannig að við fórum á Sódóma til að tékka á hinum valmöguleikanum sem var í boði á Airwaves dagskránni.
Á Sódóma var hin íslenska hljómsveit XIII að spila. Allt í lagi rokk, en ég var ekkert að missa mig. Við gáfum þessu smá stund (ca. 30 mínútur) og tékkuðum svo aftur á Nasa. Röðin hafði bara lengst ef eitthvað var. Við sáum fólk sem hafði verið aðeins fyrir framan okkur fyrr um kvöldið og það hafði hreyft sig lítið sem ekkert.
Við stóðum samt í röðinni í smá stund, en svo gáfumst við upp. Þetta var greinilega ekki að fara að gerast. Svekkjandi.
Ég veit að þetta var klúður hjá mér – ég hefði átt að mæta fyrr. En þetta fékk mig til að hugsa – ég hef eftir “áreiðanlegum heimildum” að það voru seldir 5000 miðar á Airwaves 2010. Hvað tekur Nasa marga? 600-900 manns? Segjum að þeir hafi troðið 1000 manns þarna inn – það þýðir samt að 80% af þeim sem keyptu miða á Iceland Airwaves 2010 gátu ekki séð dagskrána síðasta daginn. OK, fólk hefði getað farið á Sódóma – en Sódóma rúmar ekki 4000 manns + það sem var í boði þar var ekkert æðisfengið (heillaði greinilega ekki marga þar sem staðurinn var nánast tómur).
Spurning ef þeir ætla að hafa svona “stór nöfn” (Dan Deacon og FM Belfast voru greinilega að draga að töluvert af fólki) á sunnudaginn að hafa þá 1-2 önnur venue opin með álíka spennandi hljómsveitum – til að dreifa álaginu og leyfa meira en 20% af gestunum að sjá eitthvað síðasta kvöldið.
En, anyways… Eitt af því sem er svo mikil snilld við Iceland Airwaves hátíðina er allt fólkið sem maður rekst á – sumir sem maður hittir reglulega, aðrir sem maður hefur ekki séð í langan tíma og enn aðrir sem maður hefur aldrei hitt áður. Gott stöff.
Það sem stóð upp úr Iceland Airwaves 2010 var Moderat, Slagsmålsklubben, Robyn og Jungle Fiction.
Þetta raðarrugl og að missa af síðustu tónleikunum drap svolítið Airwaves-vímuna… bílavandræðin höfðu líka eitthvað með það að segja að ég var ekkert í brjáluðu stuði síðasta kvöldið og hafði takmarkaða þolinmæði fyrir að bíða í biðröð.
Já, ég náði svo í bílinn úr viðgerð í gær. Öxullinn hafði s.s. brotnað og varahlutirnir voru ekki til á landinu þannig að þeir þurftu að panta þá. Þetta tók viku og kostaði 140.000 kr. Hefði alveg viljað nota þennan pening í eitthvað annað :(
Fórst þú á Airwaves 2010? Hvað fannst þér bestu tónleikarnir? Hvað stóð upp úr? Hvar var besta stemningin?
Jæja, sjáumst hress á Iceland Airwaves 2011! Eins gott að setja það í Google Calendar: 12.-16. október 2011.
[Read more…] about Iceland Airwaves 2010 – Dagur 5 – Biðraðir og vonbrigði