Jæja, það er aftur komið að því… Iceland Airwaves. Miðvikudagur, fyrsti dagurinn. Spennandi. Ég gat reyndar ekki byrjað mjög snemma þar sem ég var í skólanum og svo vorum við að vinna í hópverkefni eftir tímann. En ég brunaði heim og skellti mér í Airwaves gallann. Bjössi var víst á leiðinni í Hörpu og Hlynur og Lalli voru á NASA. Þegar ég var búinn að finna bílastæði hjá Kolaportinu/Bæjarins beztu (algjör heppni!) tók ég þá ákvörðun að tékka á Hörpunni – hafði ekki ennþá upplifað tónleika í Hörpu og fannst upplagt að prófa Iceland Airwaves í Hörpu.
Ég náði restinni af Ourlives – fínasta íslenskt rokk. Benjamin Francis Leftwich þurfti víst að afboða vegna veikinda þannig að við Bjössi þurftum að finna hvað við vildum tékka á næst. Við náðum í farartækið hans Bjössa í bílakjallaranum og keyrðum fram hjá NASA þar sem var alveg rugl löng röð. Þar sem maður hefur ekki góða reynslu af svona röðum þá ákváðum við að sleppa því að bíða í röð. Fórum í staðinn á Gaukinn þar sem Blaz Roca var að spila ásamt góðum vinum. Erpur/XXX Rottweiler ná alltaf að pumpa upp góða stemningu.
Við Bjössi vildum tékka aftur á NASA hvort það væri ennþá svona biluð röð þar, af því að við vissum í raun ekki hvað við vildum sjá næst. Röðin náði ennþá nánast að Alþingi þannig að við snérum við og fórum á Café Amsterdam. Þar hittum við Einar Birgi, Áka, Kristínu og fleiri. Já, það er eitt það skemmtilega við Airwaves að maður hittir alltaf fullt af hressu liði :) Þarna var hljómsveit sem kallar sig Hljómsveitin Ég að spila – minnti svolítið á svona klassískar bílskúrshljómsveitir að prófa sig áfram ;)
Við Bjössi beiluðum fljótlega á því og fórum aftur á Gauk á Stöng þar sem EmmSjé Gauti var á sviðinu. Við tjilluðum bara á kantinum við eitthvað borð með Ásdísi og biðum eftir næsta atriði. Það var nefninlega Valdimar – hápunktur kvöldsins, mjög skemmtileg tónlist og góð stemning. Kristín slóst í hópinn og líka Hlynur fyrir rest.
Ég tók náttúrulega nokkrar ljósmyndir, eins og ég geri stundum ;)
Til hamingju allir! Það er hátíð í bæ.
Síðast uppfært 11. August, 2013
Leave a Reply