Áfram með smjörið, Iceland Airwaves 2012 er rétt að byrja ;) Eftir vinnuna (þar sem ég var að taka þátt í Ofurhetjudegi TM Software) skellti ég mér á Serrano til að fá mér smá mat áður en ég fór á “Music Production” námskeiðið (þar sem ég er að læra að búa til tónlist með Ableton Live). Það var búið kl. 20 og þá fór ég heim.
Ég gerði mig til – fór í Airwaves gallann ;) Þegar ég var kominn niður í bæ reyndist erfitt að finna bílastæði – þegar ég var að keyra um miðbæinn í leit að stæði keyrði ég fram hjá Listasafninu sem átti að vera fyrsta stoppið og þar var fáránlega löng röð (fram fyrir hornið á húsinu!). Sem kom mér smá á óvart af því að áður en ég lagði af stað tékkaði ég á biðraðamyndavélinni í Airwaves app-inu og þar var bara allt í góðu, engin röð. Málið var s.s. að feed-ið í iOS app-inu var ekki að virka :/
Þannig að ég hlammaði mér bara aftast í röðina. Hún hreyfðist smá og smá… þannig að ég hélt í vonina. Vinahópurinn var þarna inni og ég vildi gefa þessu séns – ekki mikið annað í gangi annars staðar sem ég hafði áhuga á, en hins vegar langaði mig svolítið að sjá Purity Ring sem voru á dagskrá á Listasafninu seinna um kvöldið.
Þetta endaði með að ég komst inn eftir ca. klukkutíma bið – I’ve had worse ;) Ef ég hefði ekki verið í dúnúlpu og með húfu og vettlinga þá hefði ég frosið í hel. Fólk var byrjað að tala um endaatriðið í Titanic – þegar fólk flaut frosið í sjónum ;)
Jæja, ég komst loks inn í hlýjuna :) Þar var Sóley að spila – ljúfir tónar, krúttlegt… Svo er hún nokkuð fyndin :) Eftir það komu Purity Ring – skemmtilegt elektró, ég var að fíla þetta. Skemmtilegt líka hvernig þau léku sér með ljós.
Næst var planið að skella sér í Hörpuna. Hlynur og Lalli voru reyndar eftir, en við Bjössi fórum út í óveðrið. Það var mikil svaðilför að hlaupa frá Listasafninu í Hörpuna – það var rosalega hvasst, það hvasst að gleraugun fuku af Bjössa! 5 metra eða svo… En hann náði þeim aftur.
Í Hörpu sáum við Of Monsters and Men – góðir tónleikar, krúttleg, þau kunna þetta – búin að vera æfa sig helling undanfarið :)
Í Hörpunni var ein Airwaves “hefð” sem maður sér ár eftir ár – tveir gaurar með fána þar sem stendur “LOST”. Maður sér þá yfirleitt í Listasafninu, en þeim finnst örugglega líka hentugt að vera í Hörpunni – fín lofthæð ;) Núna virðast þeir hafa breytt fánanum aðeins og skrifað “FOUND” aftan á. Ég spjallaði smá við þá í fyrra – mig minnir að þeir séu frá Bretlandi og þetta ætti að vera 7. árið sem þeir mæta á Iceland Airwaves.
Fimmtudagskvöldið var ekki mikið lengra og þá var það bara að hætta sér aftur út í ofsaveðrið til að komast heim. Það bjargaði mér algjörlega að Bjössi keyrði mig að bílnum mínum ;) Hann var s.s. lagður mun nær Hörpunni en ég.
Hérna eru svo nokkrar ljósmyndir frá öðrum degi Airwaves ’12:
Leave a Reply