• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar

I am official station

Ljósmyndir, kvikmyndagagnrýni, ferðasögur, fréttir af Hannesi og annað skemmtilegt :)

  • Bloggið
  • Kvikmyndagagnrýni
  • Ljósmyndir
  • Hvað meinaru með official station?
  • Hafðu samband / Contact me
You are here: Home / Archives for Projects

Projects

2020 í baksýnisspeglinum

15. January, 2021 Leave a Comment

Mynd eftir Kalle Kortelainen

Mér finnst gaman að renna í gegnum gamlar færslur þar sem er verið að rifja upp árið, þannig að ég ætla að punkta niður nokkur atriði sem mér finnst vert að nefna að gerðust árið 2020 – en þetta á alls ekki að grípa allt, er pottþétt að gleyma einhverju merkilegu 😅


Topp 5 vefur

Topp 5 – Fyrirtækjavefur ársins - Stór fyrirtæki - eveonline.com - Íslensku vefverðlaunin

Snemma á árinu lenti eveonline.com í topp 5 á Íslensku vefverðlaununum. Það var nokkuð stórt verkefni hjá teyminu mínu hjá CCP að endurhanna forsíðuna fyrir EVE Online vefinn og það er mikill heiður að lenda í topp 5 – mikið af flottum vefum þarna.


Spam mynd sem er komin út um allt Internetið

Ég er búinn að nota Unsplash í mörg ár til að finna flottar myndir til að nota í fyrirlestrum, í greinum, á vefsíðum, á samfélagsmiðlum o.s.frv. Mig hefur langað til að „gefa til baka“ og er búinn að setja inn nokkrar myndir á Unsplash síðuna mína. Í febrúar var ég í Costco og tók þessa mynd af Spam brettinu – mér fannst eitthvað skemmtilegt við þetta munstur:

Fullt af spam dollum á bretti í Costco

Stuttu seinna datt mér í hug að þetta gæti verið góð mynd fyrir Unsplash þannig að ég skellti henni inn þangað. Myndin hefur fengið helling af athygli og margir ákveðið að nota hana. Núna eru meira en 570.000 búin að sjá myndina og það er búið að ná í hana (download-a) meira en 3.500 sinnum. Ef ég leita að myndinni á Google finn ég mörghundruð síður sem eru að nota myndina mína 😄


Grein um hlaðvarpsbylgjuna

Allir með hlaðvarp

Mér fannst skemmtilegt þegar ég tók eftir svipaðri stemningu í kringum hlaðvörpin vaxa í vinsældum og þegar bloggin voru að vaxa í vinsældum upp úr aldamótunum. Ég skrifaði grein um það sem ég kallaði Allir með hlaðvarp af því að allir geta skellt upp hlaðvarpi.


Afmæli á Akureyri

Birna skipulagði geggjaða óvissuferð til Akureyrar í kringum afmælið mitt. Við gistum í svona yurt-tjaldi – sumir kalla þannig stemningu glæsilegu (e. glamping). Mjög skemmtilegt að prófa það 😄Sem dæmi þá var sérstaklega gaman að kíkja í Kjarnaskóg og GeoSea á Húsavík. Ég skellti slatta af myndum á Instagram:

View this post on Instagram

A post shared by Hannes Johnson (@officialstation)

View this post on Instagram

A post shared by Hannes Johnson (@officialstation)


Búnir með poppið & kvikmyndir

Búnir með poppið (hlaðvarp)

Mér finnst alltaf gaman að búa til vefsíður og ég var að dunda mér að búa til vefsíðu fyrir hlaðvarpið okkar, Búnir með poppið, sem ég setti í loftið um haustið: bunirmedpoppid.com

Árið 2020 tókum við Björn upp 8 þætti af Búnir með poppið – þeir eru m.a. aðgengilegir á Spotify. COVID-19 setti töluvert strik í reikninginn varðandi að geta farið í bíó (og taka upp hlaðvarp) á öruggan máta, fyrir utan að það var ekki verið að gefa út mikið af nýjum kvikmyndum. Ég hlakka til að fara meira í bíó og taka upp fleiri þætti 2021.

Annars sá ég 53 myndir árið 2020. Ég horfði á slatta af myndum heima í gegnum streymisveiturnar sem ég hefði annars séð í bíóhúsi. Þetta er allt saman skrásett á kvikmyndgagnrýnis-síðunni þar sem eru núna komnar rétt tæplega 900 kvikmyndir. 

Þótt ég hafi ekki séð margar myndir í bíóhúsum þetta árið þá byrjaði það mjög vel – í janúar sá ég myndina 1917 og í annað skiptið síðan ég byrjaði að safna í þennan gagnagrunn gaf ég mynd 10 stjörnur! Aðrar myndir sem fengu slatta af stjörnum…

9 stjörnur:

  • Tenet
  • The Gentlemen

8 stjörnur:

  • Unhinged
  • Palm Springs
  • The Old Guard
  • Ford v Ferrari

Bónorð

Stærsti, skemmtilegasti og mest spennandi viðburður 2020 var þegar ég trúlofaðist Birnu 10.10.2020 🥰 Hérna er myndaserían sem ég setti á Instagram:

View this post on Instagram

A post shared by Hannes Johnson (@officialstation)

Mér finnst skemmtilegt að rifja upp 2010 annálinn þar sem ég var með stutta línu:

<3 KB
Já, síðan hitti ég Birnu :) Ef það var ekki augljóst nú þegar, þá dýrka ég Kaffibarinn :D

Því tengdu þá gaf ég Birnu um jólin mynd af Kaffibarnum sem ég sérpantaða hjá hverfid.is til að heiðra þennan örlagastað 🤩

Kaffibarinn innrammaður

Tók þátt í léttu gríni sem vakti athygli

Í nóvember fékk ég símtal upp úr þurru þar sem ég var beðinn um að taka þátt í nýjustu „Ódýrari útgáfan“ herferðinni hjá Orkunni þar sem þau ætluðu að taka fyrir landsliðið. Ég átti s.s. að vera staðgengill nafna míns í markinu.

Þetta vakti töluverða athygli og margir voru að senda mér myndir og skjáskot daginn sem þetta birtist í blaðinu og á vefnum 😄


Spjallaði um stafræna markaðssetningu á Zoom

Ég var beðinn um að spjalla á viðburði hjá Fjártækniklasanum sem bar heitið „Leyndardómar stafrænnar markaðssetningar“. Eins og svo margir viðburðir þetta árið fór hann fram í gegnum Zoom. Það er hægt að sjá upptökuna á Facebook sem inniheldur einnig hin erindin og fróðlega pallborðsumræðu. 


COVID-19 ljósmyndaseríur

Ég safnaði myndum í tvær COVID-19 seríur: Skilti um örugga fjarlægð & Grímur á víð og dreif

View this post on Instagram

A post shared by Hannes Johnson (@officialstation)

View this post on Instagram

A post shared by Hannes Johnson (@officialstation)


Hlustaði á slatta af bókum

Þökk sé Northstack bókaklúbbnum hlustaði ég á 12 bækur. Fyrir fullkomið gagnsæi þá kláraði ég 7 bækur sem klúbburinn tók fyrir 2020 og komst langleiðina með 3 bækur 😉

Bækurnar sem ég kláraði:

  • The Moment of Lift: How Empowering Women Changes the World
  • Why Buddhism is True: The Science and Philosophy of Meditation and Enlightenment
  • Good to Great: Why Some Companies Make the Leap… and Others Don’t
  • Influence: The Psychology of Persuasion
  • The Future We Choose: Surviving the Climate Crisis
  • No Rules Rules: Netflix and the Culture of Reinvention
  • What’s Your Problem?: To Solve Your Toughest Problems, Change the Problems You Solve

Bækur sem ég á eftir að klára:

  • The Divide: A Brief Guide to Global Inequality and its Solutions
  • Say Nothing: A True Story of Murder and Memory in Northern Ireland
  • The Body: A Guide for Occupants

Svo kláraði ég tvær bækur sem Northstack bókaklúbburinn tók fyrir 2019:

  • Becoming
  • Talking to Strangers: What We Should Know about the People We Don’t Know

Fyrir áhugasama þá er Goodreads síðan mín hérna.


Hress tónlist

Grafík fyrir Hress 2020 / HRESS MMXX tónlistann

Eins og ég hef gert árlega síðan 2005 safnaði ég í Hress 2020 „tón-listann“. 32 lög þetta árið – 2 klst. og 6 mínútur. Aðgengilegt í allri sinni dýrð á Spotify.


Takk fyrir að lesa 🙏

Það verður fróðlegt að sjá hvað 2021 býður upp á – stærsti viðburðinn er núna fljótlega, en við Birna ætlum að gifta okkur 23. janúar þegar við eigum 10 ára sambandsafmæli 💖

Filed Under: Bækur, Ferðalög, Kvikmyndir, Ljósmyndir, Markaðssetning, Projects, Skrifa, Tónlist Tagged With: afmæli, annáll, Búnir með poppið, Birna, Bjössi, CCP, hlaðvarp, hress, kaffibarinn, Spotify, vinnan

Allir með hlaðvarp af því að allir geta skellt upp hlaðvarpi

1. July, 2020 1 Comment

Það er búið að vera mjög fróðlegt að fylgjast með þróuninni á hlaðvörpum undanfarin tvö ár eða svo. Minnir mig smá á blogg-bylgjuna upp úr aldamótunum – þá var mikið af fólki að byrja með sitt eigið blogg (eitt eða með fleirum). Fyrir aldamótin voru vissulega ýmsir byrjaðir að blogga sem voru með þekkinguna til að nota sérsniðna lausn. En eftir aldamótin fóru kerfi eins og Blogger, Movable Type, WordPress, BlogCentral o.s.frv. að poppa upp sem gerði það auðveldara og aðgengilegra fyrir fleiri að byrja að blogga.

Núna finnst mér vera svipuð staða með hlaðvörp. Það er langt síðan fólk með kunnáttuna og tólin settu í loftið hlaðvörp – ég man t.d. eftir að hafa hlustað á Ricky Gervais hlaðvarpið í strætó á leiðinni í HR (ca. 2006 líklega). En núna er meira um aðgengileg og ódýr tól og tæki þannig að nánast hver sem er getur byrjað með sitt eigið hlaðvarp og auðveldlega dreift því.

Þjónustur til að framleiða hlaðvörp

Anchor fór í loftið 2015, fyrst sem samfélagsmiðill fyrir hljóðupptökur (“social audio service geared for short-form content”) en breytti síðan um stefnu (pivot-aði) yfir í að vera þjónusta til að hjálpa fólki að gefa út hlaðvörp (“platform for podcast creation”) 2018. Spotify keypti svo Anchor 2019 – þau vilja vera risi í „hljóð-neyslu“ hvort sem það er tónlist eða hlaðvörp sem fólk hlustar á. Í gegnum Anchor er hægt að taka upp, klippa saman og framleiða hlaðvarp ásamt að koma því auðveldlega í dreifingu á öllum helstu hlaðvarpsveitunum.

Það kostar ekki neitt að nota Anchor – af því að Spotify vill eiga góðan hluta af hlaðvarpsmarkaðnum og öll gögnin sem því fylgir. Það virðist vera að virka ágætlega – samkvæmt þeim er þriðja hvert hlaðvarp sem er búið til í heiminum framleitt með Anchor. En svo eru líka aðrar lausnir í boði (bæði ókeypis og aðrar sem kosta): SoundCloud, Podbean, Transistor, Simplecast og Libsyn sem dæmi.

Til að byrja með voru það aðallega einstaklingar og hópar sem voru með blogg. En svo áttuðu fyrirtæki sig smám saman á ávinningnum við að blogga reglulega. Mér sýnist það einmitt vera að gerast núna – fleiri og fleiri fyrirtæki og stofnanir eru að setja upp sitt eigið hlaðvarp. Sagan endurtekur sig 😉

Mitt eigið hlaðvarp

Ég var búinn að vera lengi með löngun í að byrja með hlaðvarp – var bara ekki alveg viss með umræðuefni eða snið þannig að þetta yrði eitthvað meira en 2-3 þættir á ári. Ég er búinn að vera skrifa kvikmynda-örgagnrýni í 13 ár og oft er það eftir að hafa farið í bíó með Birni. Björn byrjaði fyrir einhverjum árum síðan að setja inn mjög skemmtilega 10 sekúndna búta á Snapchat þar sem hann ræðir kvikmyndir sem hann var að sjá og gefur þeim stjörnur.

Fólk hefur kannski tekið eftir því, en við Björn erum núna búnir að leiða saman hesta okkar og settum í loftið hlaðvarpið Búnir með poppið síðasta haust. Við erum búnir að taka upp 10 þætti, en COVID-19 setti smá strik í reikninginn. Þótt kvikmyndahúsin séu núna búin að opna aftur þá er búið að fresta útgáfunum á mikið af stóru myndunum, þannig að það er ekki mikið úrval af góðum myndum í bíó. En við förum að skella okkur í stúdíóið bráðlega – og til gamans má geta að „stúdíóið“ er reyndar bara sími og hljóðnemi í bílunum okkar eða bílskúrnum, það þarf ekki mikið meira til 😄

Þú mátt endilega hlusta á nýjasta þáttinn okkar og gerast áskrifandi 🍿 🎧 🙏

Filed Under: Kvikmyndir, Projects, Tækni Tagged With: Búnir með poppið, Bjössi, blogg, Spotify, WordPress

2019 – Tónlist & kvikmyndir

26. February, 2020 1 Comment

2019

Fyrst birt á Facebook 13. janúar 2020

Í kringum áramót er oft fróðlegt að líta yfir farinn veg. Mig langaði að taka saman árið 2019 – aðallega hvað varðar tónlist og kvikmyndir. 

Hress 2019 

Hinn árlegi tónlisti Hress 2019 er tilbúinn og aðgengilegur hérna á Spotify. 

“Plötuumslag” fyrir Hress 2019

Hérna eru öll lögin í handhægum spilara – greinin heldur svo áfram fyrir neðan 😅

Eins og svo oft áður þá eru sum lög hressari en önnur 😉 Þetta endaði í 39 lögum (2 klst. og 28 mín.). Fleiri lög en undanfarin ár, en samt ekki metið – árið 2010 voru jafnmörg lög á listanum og töluvert fleiri 2008 og 2009. 

Það kemur ekki á óvart að “Top Songs” hjá mér samkvæmt Spotify Wrapped eru öll af Hress 2019. 

Það kom mér hins vegar smá á óvart að The Bloody Beetroots væri “My Top Artist of the Decade” (reyndar ekki alveg allur áratugurinn þar sem ég byrjaði að nota Spotify 2013). Diplo er þarna #2 sem ég get vel trúað. Ég hefði líka alveg búist við að sjá Justice, The Prodigy og Steve Aoki á listanum. Gaman að sjá Booka Shade þarna sem ég sá einmitt live núna á Iceland Airwaves. 


Kvikmyndagagnrýni

Ég horfði á 68 kvikmyndir árið 2019. Allt saman skjalfest á https://www.officialstation.com/kvikmyndir – ég er kominn með 843 myndir í þennan gagnagrunn og meðalstjörnugjöfin fyrir allar þessar myndir er 6,58 (af 10). Ef við skoðum bara myndirnar sem ég sá árið 2019 er meðaltalið 6,38. 

Hérna má sjá fjölda kvikmynda per ár síðan ég byrjaði að skrásetja þetta: 

Fjöldi kvikmynda per ár

Ég var forvitinn að skoða hvernig dreifingin var á stjörnunum.

Lucky Number 7 er þarna sem algengasta stjörnugjöfin 😅 Mér finnst þetta nokkuð eðlileg dreifing – ég reyni að forðast að horfa á myndir sem mig grunar að séu lélegar 😉

En þetta var reyndar árið þar sem ég gaf fyrstu kvikmyndinni sem ég hef þraukað í gegnum eina stjörnu (sem sagt ekki bara hætt að horfa og þar af leiðandi ekki sett í gagnagrunninn minn). Myndin sem á þann vafasama heiður er Mandy með Nicolas Cage. Það var bara búið að hype-a þessa mynd svo mikið, mér fannst ég þurfa að tékka á henni (og var að vonast eftir að hún myndi skána eitthvað).

Þrátt fyrir að stjörnugjöf segi alls ekki allt þá eru hérna kvikmyndirnar sem ég gaf flestar stjörnur árið 2019:

9 stjörnur:

  • Joker
  • Avengers: Endgame

8 stjörnur:

  • Upgrade
  • 21 Bridges
  • The Irishman
  • Booksmart
  • Once Upon a Time in Hollywood
  • Long Shot
  • John Wick: Chapter 3 – Parabellum
  • Us
  • The Guilty
  • Captain Marvel

Svo er gott að minna á að hjá mér er þetta meira upplifunar-stjörnur frekar en gæða-stjörnur.


Búnir með poppið

Ég og Björn Jónsson settum í loftið nýtt hlaðvarp: Búnir með poppið. Okkur finnst ekki leiðinlegt að fara í bíó og okkur finnst ekki leiðinlegt að spjalla um kvikmyndir. Við höfðum verið að ræða það í nokkurn tíma að byrja með hlaðvarp um kvikmyndir og létum loks verða af því – þegar við vorum búnir að finna nafn á það 😅

Við erum búnir að taka upp níu þætti sem eru aðgengilegir meðal annars á Spotify og Apple Podcasts og ég hlakka til að taka upp fleiri þætti 🎙


Þar hafið þið það – einn vinkill af 2019 😄

Takk fyrir að lesa 🙏

Filed Under: Kvikmyndir, Projects, Tónlist Tagged With: annáll, Búnir með poppið, Bjössi, Diplo, gagnrýni, hress, Iceland Airwaves, Justice, Spotify, steve aoki, the bloody beetroots, the prodigy

Annáll: 2011 – Það helsta sem gerðist þetta árið

31. December, 2012 3 Comments

Ég er aðallega að setja þetta inn fyrir mig, til að punkta hjá mér það helsta sem gerðist til að rifja upp seinna. Þannig að það skiptir ekki máli að þetta birtist ~12 mánuðum of seint ;) ..og til að flýta fyrir þá er ég frekar stuttorður varðandi sum atriði. Ef einhverjir þarna úti hafa áhuga að fá að vita nánar um eitthvað þá bara láta vita. Ég fjalla með glöðu geði nánar um það sem fólk er forvitið um :)

Hliðarverkefni

Snemma á árinu bjó ég til The Big List of Icelandic Developers. Þessi listi fékk smá athygli og ég er ennþá að fá beiðnir frá fólki sem vill komast á listann. Það er gaman að vinna í svona litlum hliðarverkefnum sem fólk er að fíla og deilir með vinum sínum. Svipað og með Hvað eru vinir þínir að fíla á flickmylife.com? sem ég gerði árið áður.

iPhone!

Ég keypti mér iPhone 4 í febrúar. Að hlutur geti breytt lífi manns er kannski stórt til orða tekið… en samt, það að fá sér snjallsíma/iPhone hefur klárlega breytt lífinu mínu að mörgu leyti.

Fjallgöngur

Fjallganga - Eyrarfjall í Kjós

Við Birna fórum í Eitt fjall á mánuði. Við stunduðum það eftir hentugleika ;) Maður komst ekki alltaf – var t.d. alltaf upptekinn á laugardögum um haustið/veturinn (sjá fyrir neðan). En við fórum t.d. upp á Eyrarfjall í Kjós.

Fyrirlestur

Ský - Frátekið fyrir fyrirlesara

Ég hélt minn fyrsta “opinbera” (s.s. ekki bara fyrir vinnu- eða skólafélaga) fyrirlestur hjá Ský 2. mars 2011 á ráðstefnu um leitarvélar. Ég var smá stressaður, en það gekk bara nokkuð vel fannst mér. Hérna eru glærurnar:

Everyday

Ég byrjaði á Everyday verkefninu 21. mars 2011. Eitt af myndböndunum sem ég bjó til vakti athygli þeirra sem standa bakvið app-ið sem ég nota og ég fékk skemmtileg hrós frá þeim :)

Hérna er 10 mánaða útgáfan:

Bílakaup

Suzuki Grand Vitara

Keypti mér nýjan bíl í apríl: Suzuki Grand Vitara, 2005 árgerð. Seldi Póló-inn, búinn að eiga hann í 4 ár. Þeir hjá Bílalíf voru alveg skuggalega fljótir að selja bílinn – og ég fékk uppsett verð. Very nice :) “Súkkan” er búin að standa sig mjög vel. Mjög smooth að keyra hann og lítið sem ekkert vesen.

Kanada

Vitinn við Peggys Cove, Nova Scotia

Í júní fór ég til Kanada (í fyrsta skipti!) með Birnu og fjölskyldu hennar. Nánar tiltekið til Halifax. Mjög fínt frí. Vorum bara að tjilla og leika okkur, túristast og slæpast. Við vorum með bílaleigubíl og keyrðum smá um Nova Scotia – m.a. til Peggys Cove. Villtumst reyndar smá á leiðinni, en það var bara skemmtilegt ævintýri :)

Sumarið

Birna fór til Indlands í 7 vikur. Það var smá spes – mjög gaman þegar hún kom aftur heim :D

Gekk Laugaveginn með hluta af Þotuliðinu (húrra fyrir mér!). Þetta tók á, sérstaklega síðasta daginn. En þetta var ævintýri og rosalega fallegt þarna. Til að fagna þessum merka áfanga bjó ég til smá verðlaunaskjal fyrir mig :)

Ég gekk fokking Laugaveginn

Fór á Bræðsluna í fyrsta skipti með góðum hópi (ROAD TRIP!). Ég hélt upp á afmælið mitt þar – um daginn fórum við nokkur saman í smá hliðar road trip og urðum næstum því bensínlaus lengst uppi á fjalli! Skemmtilega klikkað ævintýri ;) Við stoppuðum bílinn þegar við þorðum ekki lengra og böðuðum okkur í læk þar nálægt. Heimferðin reyndi á taugarnar – KOMUMST VIÐ HEIM?! ;)

Fór á Þjóðhátið með crew-inu. Mér fannst skemmtilegra árið áður, kannski af því að það var stærri hópur og fyrsta Þjóðhátíðin hjá mörgum, meiri spenna.

Það mætti segja að Úlfur úlfur með Berndsen & Bubba hafi verið sumarlagið 2011. Mikið spilað.

Atvinnutilboð

Í ágúst þurfti ég að ákveða hvort ég ætti að gerast CTO hjá sprotafyrirtæki og flytja til San Francisco. Frekar erfið ákvörðun – kostir og gallar… Spennandi tækifæri, en ég endaði á því að hafna tilboðinu. Hentaði mér ekki alveg.

Meira nám

Ég settist aftur á skólabekk – fór í námsbraut í Opna háskólanum í HR sem nefnist Markaðssamskipti og almannatengsl. Það var mjög gaman. Spennandi og krefjandi (það reyndi á að vera í nokkuð tímafreku námi og fullri vinnu). Það var kennt miðvikudagskvöld og laugardagsmorgna. Þannig að maður komst eiginlega ekki í fleiri fjallgöngur þar sem þær voru alltaf á laugardögum.

Nýtt lögheimili

Í september flutti ég inn til Birnu. Yay! :)

Æsifréttamennska

Lögreglan að handtaka bílaþjófa við Borgartún

Ég gerðist tímabundið fréttaljósmyndari fyrir dv.is ;) Tveir gaurar reyndu að stela bíl sem var í gangi á bensínstöðinni fyrir utan vinnuna. Við heyrðum lætin þegar þeir bökkuðu á staur og eigandi bílsins fór að hrópa. Fólk nálægt handsamaði strákana. Svo kom lögreglan. Ég tók nokkrar myndir á símann minn og setti á Twitter:

Allt að gerast á Borgartúni. 2 gaurar reyndu að ræna bíl, klesstu á staur og hlupu í burtu. Citizen arrest. twitpic.com/6hvu1d

— Hannes (@officialstation) September 8, 2011

Blaðamaður hjá DV sem er að fylgjast með mér á Twitter hafði samband og spurði hvort þeir mættu nota myndina mína :) Ég leyfði það og myndin mín var notuð með fréttinni.

Vinnan

The Tempo Times

Meira tengt vinnunni – Ég vann að því að gefa út fyrstu útgáfuna af The Tempo Times. Ég var aðstoðarritstjóri og leiddi þetta verkefni að vissu leyti. Þetta var blað sem við notuðum til að kynna tímaskráningarkerfið Tempo. Blaðinu var dreift út um allt, m.a. á ráðstefnu í London.

Teymið mitt vann Ofurhetjudaginn hjá TM Software. Verkefnið sem við unnum að var vefverslun og ég sá um að búa til mobile útgáfu af henni.

Í október var ég kjörinn í stjórn SVEF. Ég var reyndar sjálfkjörinn þar sem það voru alveg passlega margir sem buðu sig fram ;) Skemmtilegt að hlúa að vefiðnaðinum (af því að ég elska Internetið). Við erum m.a. að skipuleggja Íslensku vefverðlaunin, vinnusmiðjur og fyrirlestra/bjórkvöld.

Frægð og frami

Íslandsbanki - auglýsing

Ég lék í auglýsingu fyrir Íslandsbanka. My 15 seconds of fame ;) Eða meira svona 10 sekúndur í byrjun á þessu myndbandi:

Smá skrýtið reyndar hvernig þeir breyttu útlitinu á þessu (birta, contrast…). En já, það var svolítið síðan að ég spáði í þessum brandara þegar ég sá að Íslandsbanki var með þennan leik um besta sparnaðarráðið. Ég rifjaði upp brandarann og sendi hann inn :)

Brandarinn er s.s. sá að í staðinn fyrir að kaupa 55″ sjónvarp þá getur þú keypt 32″ sjónvarp og bara fært sófann nær ;) Þá virðist myndin vera jafn stór og á 55″ sjónvarpi.

Þetta var valið eitt af frumlegustu hugmyndunum og notað m.a. í fréttatilkynningunni.

Bækur

Ég var að lesa ýmsar bækur, t.d.:

  • Create Stunning HTML Email That Just Works eftir Mathew Patterson
  • Linchpin: Are You Indispensable? eftir Seth Godin
  • Outliers: The Story of Success eftir Malcolm Gladwell
  • Making Ideas Happen: Overcoming the Obstacles Between Vision and Reality eftir Scott Belsky

Kvikmyndir

Ég horfði á 66 kvikmyndir árið 2011. Árið 2010 horfði ég á 78 kvikmyndir. Það er hægt að sjá kvikmyndagagnrýnina fyrir þessar myndir hér.

Quantified self

Samkvæmt your.flowingdata fór ég 8 sinnum í klippingu árið 2011 og kostaði það mig 31.700 kr (að meðaltali 3962,50 kr. hver klipping).

Þannig var nú það… 2011 í hnotskurn :)

Deliver me from Swedish furniture

Filed Under: Bækur, Ferðalög, Fyndið, Kvikmyndir, Ljósmyndir, Markaðssetning, Projects, Tónlist, Video Tagged With: afmæli, annáll, app, auglýsing, Þjóðhátíð, Þotuliðið, útivist, bíll, Birna, brandari, Bræðslan, everyday, fjallganga, fyrirlestur, glærur, hliðarverkefni, iphone, kanada, KinWins, Malcolm Gladwell, San Francisco, Seth Godin, skóli, SVEF, Tempo, TM Software, Twitter, vinnan

Instagram was down yesterday, so I created this fun little website

1. July, 2012 Leave a Comment

When Instagram is down – Don’t forget to refresh the site for more ;)

via Instagram

Þetta er í svipuðum stíl og When Tumblr is down sem ég bjó til fyrir nokkrum árum og var mjög vinsæl hérna um árið.

Filed Under: Farsímamyndir, Projects Tagged With: Instagram, webdev

Reciary gæti unnið $61,000+

25. April, 2012 Leave a Comment

Birna kom með hugmynd um daginn – samfélagsvefur þar sem fólk deilir uppskriftum og fylgist með öðrum (fólk sem er að deila uppskriftum sem þú fílar). Við erum búin að vera pæla í þessu smá – hvernig best væri að útfæra þetta, finna nafn á þetta og svona… Það er ekki auðvelt að finna sniðugt nafn þar sem .com lénið er laust ;) En við völdum nafnið Reciary, myndað úr orðunum recipe og diary – þetta er uppskrifta-dagbókin þín :)

Í síðasta mánuði tók ég eftir keppni, Lean Challenge 2012. Mér fannst upplagt að senda Reciary inn í þessa keppni. 10. apríl opnuðu þeir fyrir atkvæðum og getur fólk bara kosið í gegnum Twitter. Það þarf að nota ákveðið “hashtag” til þess að kjósa hugmyndina sem þú vilt að vinni.

Það er mikið í húfi – verðmæti vinninganna er samtals yfir $61,000! Þannig að það væri frábært ef þú gætir hjálpað okkur með því að pósta á Twitter smá skilaboðum sem innihalda “#leanvote2012-14” (án gæsalappa). Það er hægt að nota Tweet takkann á kosningasíðunni hjá hugmyndinni okkar (þar sem stendur “Hannes – #leanvote2012-14 – Reciary is a social network where people can share recipes, be inspired by others and themselves by looking back.”).

Þessi Tweet takki ætti líka að virka:

Tweet

“Retweets” telja líka sem atkvæði og þú getur RTað þetta tíst.

Það er hægt að kjósa út 25. apríl (miðnætti á CST tímabeltinu sem mér skilst að sé 6 tímum á eftir okkur).

Fyrir þá sem vilja prófa Reciary þá erum við búin að setja upp “beta” útgáfu af Reciary á reciary.is :)

Don’t forget to send me a friend request

Filed Under: Projects Tagged With: Birna, hugmynd, keppni, Reciary, startup

  • Go to page 1
  • Go to page 2
  • Go to page 3
  • Go to page 4
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Þetta helsta

  • Bloggið
  • Kvikmyndagagnrýni
  • Ljósmyndir
  • Hvað meinaru með official station?
  • Hafðu samband / Contact me

🎞️ Gömlu photostrip myndirnar 📷

This slideshow requires JavaScript.

Áskrift að nýjum færslum

Skráðu netfangið þitt hérna til að fá tilkynningar þegar ég gef út nýjar færslur.

Copyright © 2021 Hannes · Hafðu samband / Contact me

  • Bloggið
  • Kvikmyndagagnrýni
  • Ljósmyndir
  • Hvað meinaru með official station?
  • Hafðu samband / Contact me